Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn byrjaði með fagfundum sem fram fóru á Hótel Örk og hjá félagsmönnum SAF í bænum – Eldhestum, Skálanum Reykjadal og Iceland Activities. Þá fór einn fundur fram á bæjarskrifstofum Hveragerðisbæjar. Á fundunum var farið yfir liðið starfsár hjá fagnefndum SAF ásamt því að góðir gestir fluttu erindi og kjörið var í fagnefndir fyrir komandi starfsár.
Umræður um ástand og horfur í ferðaþjónustu
Eftir hádegisverð á Hótel Örk stýrði Pétur Óskarsson, formaður SAF, umræðum um ástand og horfur í ferðaþjónustu. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar, Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard og Ísak Eyfjörð Arnarson, framkvæmdastjóri Efstadals 2 tóku þátt í umræðunum.
Hefðbundin aðalfundarstörf á Hótel Örk
Í kjölfarið fór aðalfundur SAF 2025 fram með sínum hefðbundnu störfum undir fundarstjórn Friðriks Sigurbjörnssonar, bæjarfulltrúa í Hveragerði. Í upphafi fundarins ávarpaði Pétur Markan, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, fundarmenn og bauð þá velkomna í blómabæinn Hveragerði. Þá fór Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, yfir ársreikninga samtakanna, kynnti lagabreytingu sem fyrir fundinum lá og tillögu stjórnar SAF um óbreytt félagsgjöld fyrir komandi starfsár. Líkt og á undanförnum aðalfundum fóru formaður og framkvæmdastjóri SAF yfir liðið starfsár í spjallformi undir stjórn Skapta Arnar Ólafssonar, upplýsingafulltrúa SAF. Í kjölfarið sköpuðust góðar umræður meðal fundarmanna.
- Hlekkur: Ársskýrsluvefur SAF 2024.
Stefán, Rannveig og Sævar hlutu kjör í stjórn SAF
Í aðdraganda aðalfundar fór fram rafræn kosning til stjórnar SAF fyrir starfsárin 2025 – 2027. Sex einstaklingar voru í kjöri um þrjú stjórnarsæti. Lára B. Pétursdóttir, formaður kjörnefndar SAF, lýsti niðurstöðu í kjörinu, en þau Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri GJ Travel, Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar hvalaskoðunar og Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð hlutu kjör í stjórn SAF til næstu tveggja ára.
Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair og Jóhanna Margrét Gísladóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Play hlutu færri atkvæði og eru því varamenn í stjórn SAF starfsárið 2025 – 2026.
Á aðalfundinum í ár hætta þau Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta Icelandair og Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins Fly Play í stjórn SAF. Þá steig Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia, úr stjórn SAF í aðdraganda aðalfundar eftir 6 ára stjórnarsetu. Eru þeim færðar hinar bestu þakkir fyrir góð störf á vettvangi SAF.
Blómabærinn skartaði sínu fegursta
Eftir kraftmikinn aðalfund SAF fóru fundarmenn í vettvangsferð um Hveragerði þar sem Kjörís og Gróðurhúsið voru sótt heim. Fóru forsvarsmenn fyrirtækjanna yfir starfsemina og buðu félagsmönnum í SAF upp á léttar veitingar. Að kvöldi aðalfundardags bauð bæjarstjórn Hveragerðisbæjar til móttöku á Hótel Örk áður en góðum degi var lokið með hátíðarkvöldverði og skemmtun.
Upptaka og ljósmyndir frá aðalfundi SAF
Myndavélin var á lofti í Hveragerði og má sjá svipmyndir og upptöku frá fundinum í hlekkjunum hér að neðan.
- Hlekkur: Ljósmyndir frá aðalfundi SAF 2025.
- Hlekkur: Upptaka frá aðalfundi SAF 2025.
Svipmyndir frá aðalfundi SAF 2025








