Kraftmikill aðalfundur SAF í Hveragerði

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn byrjaði með fagfundum sem fram fóru á Hótel Örk og hjá félagsmönnum SAF í bænum – Eldhestum, Skálanum Reykjadal og Iceland Activities. Þá fór einn fundur fram á bæjarskrifstofum Hveragerðisbæjar. Á fundunum var farið yfir liðið starfsár hjá fagnefndum SAF ásamt því að góðir gestir fluttu erindi og kjörið var í fagnefndir fyrir komandi starfsár.

Umræður um ástand og horfur í ferðaþjónustu

Eftir hádegisverð á Hótel Örk stýrði Pétur Óskarsson, formaður SAF, umræðum um ástand og horfur í ferðaþjónustu. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar, Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard og Ísak Eyfjörð Arnarson, framkvæmdastjóri Efstadals 2 tóku þátt í umræðunum.

Hefðbundin aðalfundarstörf á Hótel Örk

Í kjölfarið fór aðalfundur SAF 2025 fram með sínum hefðbundnu störfum undir fundarstjórn Friðriks Sigurbjörnssonar, bæjarfulltrúa í Hveragerði. Í upphafi fundarins ávarpaði Pétur Markan, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, fundarmenn og bauð þá velkomna í blómabæinn Hveragerði. Þá fór Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, yfir ársreikninga samtakanna, kynnti lagabreytingu sem fyrir fundinum lá og tillögu stjórnar SAF um óbreytt félagsgjöld fyrir komandi starfsár. Líkt og á undanförnum aðalfundum fóru formaður og framkvæmdastjóri SAF yfir liðið starfsár í spjallformi undir stjórn Skapta Arnar Ólafssonar, upplýsingafulltrúa SAF. Í kjölfarið sköpuðust góðar umræður meðal fundarmanna.

Í aðdraganda aðalfundar fór fram rafræn kosning til stjórnar SAF fyrir starfsárin 2025 – 2027. Sex einstaklingar voru í kjöri um þrjú stjórnarsæti. Lára B. Pétursdóttir, formaður kjörnefndar SAF, lýsti niðurstöðu í kjörinu, en þau Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri GJ Travel, Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar hvalaskoðunar og Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð hlutu kjör í stjórn SAF til næstu tveggja ára.

Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair og Jóhanna Margrét Gísladóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Play hlutu færri atkvæði og eru því varamenn í stjórn SAF starfsárið 2025 – 2026.

Á aðalfundinum í ár hætta þau Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta Icelandair og Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins Fly Play í stjórn SAF. Þá steig Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia, úr stjórn SAF í aðdraganda aðalfundar eftir 6 ára stjórnarsetu. Eru þeim færðar hinar bestu þakkir fyrir góð störf á vettvangi SAF.

Blómabærinn skartaði sínu fegursta

Eftir kraftmikinn aðalfund SAF fóru fundarmenn í vettvangsferð um Hveragerði þar sem Kjörís og Gróðurhúsið voru sótt heim. Fóru forsvarsmenn fyrirtækjanna yfir starfsemina og buðu félagsmönnum í SAF upp á léttar veitingar. Að kvöldi aðalfundardags bauð bæjarstjórn Hveragerðisbæjar til móttöku á Hótel Örk áður en góðum degi var lokið með hátíðarkvöldverði og skemmtun.

Upptaka og ljósmyndir frá aðalfundi SAF

Myndavélin var á lofti í Hveragerði og má sjá svipmyndir og upptöku frá fundinum í hlekkjunum hér að neðan.


Svipmyndir frá aðalfundi SAF 2025

Tengdar fréttir

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stendur að ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar, ráðstefnu um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030 þann 14. maí í Hofi, …

Hringborðsumræður með sérfræðingum í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum. Samtök ferðaþjónustunnar og Iðan fræðslusetur bjóða öllum sem áhuga hafa að taka þátt í …

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa óveðursský hrannast upp í alþjóðaviðskiptum í kjölfar ófyrirsjáanlegrar stefnu og aðgerða bandaríkjaforseta í alþjóðasamskiptum. Tíu prósent …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn …

Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar, sem fram fór í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars, var kjörið í fagnefndir SAF. Eftirtaldir einstaklingar skipa …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2025 fór fram á Hótel Örk í Hveragerði í gær, fimmtudaginn 20. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram …